Viðurkenningar 2019-2020

Jón Stefánsson heiðraður á grænfánaafhendingu í Hvolsskóla

Hvolsskóli fékk á dögunum afhentan sinn 6. grænfána fyrir vel unnin störf í umhverfismálum. Við sama tilefni fékk Jón Stefánsson sérstaka heiðursviðurkenningu frá Landvernd fyrir sinn þátt í uppbyggingu grænfánaverkefnisins innan skólans.

Jón hefur starfað við skólann um árabil og hefur meðal annars helgað sig umhverfismálum og umhverfisúrbótum innan skólans. Hann hefur leitt grænfánaverkefni skólans undanfarin ár og hafa nemendur unnið fjölmörg verkefni undir hans stjórn. Sem dæmi um slík verkefni má nefna kolefnismælingar á framkvæmdum við Landeyjarhöfn, gerð útikennslustofu, ræktun matjurta á skólasvæðinu, hænsnahald í umsjón nemenda, ánamoltu innandyra, umsjón vistheimtarverkefnis Landverndar innan skólans ásamt mörgu fleiru. Það verkefni sem hefur vakið hvað mesta athygli innan lands og utan eru þó mælingar nemenda á hopi Sólheimajökuls. Verkefnið hefur verið í gangi innan skólans frá árinu 2010 og hafa nemendur 7. bekkjar farið árlega að Sólheimajökli og mælt hop jökulsins. Með í för eru aðilar frá björgunarsveit sveitarfélagsins og fá nemendur m.a. að sigla með þeim á lóni sem myndast hefur við jökulsporðinn og mæla dýpt þess. Nemendur nýta sér mæligögnin ásamt gögnum fyrri ára til að bera saman hop milli ára og vinna úr og kynna niðurstöður. Með verkefninu finna nemendur fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga á eigin skinni enda ekki víða í veröldinni jafnauðvelt að komast að hopandi jöklum og hér á landi.

Við óskum Hvolsskóla og Jóni Stefánssyni innilega til hamingju með vel unnin störf í verkefninu og hlökkum til að starfa áfram með þeim í þessu og fleiri verkefnum.

Á meðfylgjandi myndum má sjá umhverfisnefnd skólans taka við sínum sjötta grænfána og Jón Stefánsson veita heiðursviðurkenningunni viðtöku. 

Viðurkenning umhverfisverðlauna Sigríðar í Brattholti 16. september 2019.

Góðir gestir – til hamingju með daginn.

Undanfarin misseri hefur ákveðinn hópur gert sig mjög gildandi í umræðum um mikilvægi sjálfbærrar þróunar og haft með þrýstingi sínum verulega áhrif á stjórnmálamenn og stefnumótun stjórnvalda í þessum efnum. Þetta er framtíðarfólkið sjálft, börn og ungmenni sem hafa með aðdáunarverðum hætti tekið dagskrárvaldið í sínar hendur og krafið þá sem völdin hafa um aðgerðir í þágu loftslags og náttúru svo eftir hefur verið tekið um allan heim.

En hvaðan kemur þessi ástríða unga fólksins í umhverfis- og náttúruverndarmálum? Einhverjir myndu nefna fréttaflutning og umræðu í fjölmiðlum um hnignandi ástand Jarðar og yfirvofandi loftslagsvá sem helstu ástæðu vitundarvakningar unga fólksins. Færri hugsa ef til vill um það umhverfisuppeldi sem börnin hafa fengið, inni á heimilunum en ekki síður í skólakerfinu.

Þar verður mikilvægi góðra uppalenda seint ofmetið.

Við erum svo heppin að hér á Íslandi eigum við marga góða kennara sem hafa ástríðu fyrir því að börn og ungmenni kynnist náttúrunni af eigin raun og öðlist skilning fyrir því hvernig hún er okkur lífsnauðsyn; hvernig ein lífvera hefur áhrif á aðra og hvaða áhrif inngrip okkar mannfólksins hafa á hringrás náttúrunnar.

Einn slíkra kennara er handhafi Náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti í ár, Jón Stefánsson, náttúrufræðikennari í Hvolsskóla á Hvolsvelli.

Það er óhætt að segja að sem kennari hafi Jón skarað fram úr með sínum óþrjótandi áhuga á að nýta nærumhverfi barnanna – náttúruna á heimaslóðum þeirra – til kennslu, rannsókna og upplifunar. Þau eru fjölbreytt verkefnin sem hann hefur hrint af stað í Hvolsskóla og sveitinni í kring þar sem krakkarnir hafa verið virkir þátttakendur og fundið á eigin skinni hvernig náttúran breytist og bregst við athöfnum mannanna, upp á gott og vont.

Nemendur Hvolsskóla hafa enda uppskorið ríkulega, ekki bara í aukinni náttúruvitund heldur eru þeir hlaðnir viðurkenningum fyrir umhverfis- og náttúruverndarverkefni sem þau hafa unnið undir styrkri stjórn kennara síns, Jóns Stefánssonar:

  • Í tvígang hafa þeir verið útnefndir Varðliðar umhverfisins sem er viðurkenning sem við hér í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu veitir grunnskólabörnum árlega.
  • Sömuleiðis hafa nemendur Hvolsskóla fengið umhverfisverðlaun Landgræðslunnar og verið fengnir til að útskýra málin fyrir mörg hundruð sérfræðingum á Umhverfisþingi.
  • Skólinn hefur flaggað umhverfisviðurkenningu Landverndar, Grænfánanum, frá 2008
  • auk þess að verða fyrstur íslenskra skóla til að vera útnefndur jarðvangsskóli undir merkjum UNESCO Geo-skóla, í gegnum Kötlu jarðvang.

Nemendur Jóns í Hvolsskóla, fyrr og nú eru vel að viðurkenningunum komnir. Árið 2010 gerðu þeir til dæmis úttekt á umhverfisáhrifum vegna framkvæmda við Landeyjahöfn þar sem þeir skoðuðu umfang þeirra og áhrif á náttúruna, reiknuðu út losun gróðurhúsalofttegunda af framkvæmdunum og veltu fyrir sér hvort hægt væri að binda koldíoxíð á móti með landgræðslu.

Landgræðsla og vistheimt er nemendum Hvolsskóla ekki með öllu framandi því Hvolsskóli og Jón tóku strax vel í að vera einn af fyrstu skólunum til að prufukeyra Vistheimtarverkefni Landverndar sem hleypt var af stokkunum árið 2013. Þar beita nemendurnir viðurkenndum rannsóknaraðferðum við að kanna áhrif og árangur ólíkra aðferða við landgræðslu. Hvolsskóli var einnig fyrstur grunnskóla til að taka þátt í Hekluskógarverkefninu þar sem nemendur Jóns hafa árlega sett niður trjáplöntur á sérmerktu svæði við rætur Heklu og þannig lagt sitt af mörkum við uppgræðslu landsins. Þessi vistheimtarverkefni sem Jón hefur drifið svo ötullega áfram í skólanum eru frábært dæmi um hvernig má nálgast viðfangsefni í náttúruvernd sem er bæði áþreifanlegt og mikilvægt á heimaslóðum nemendanna sjálfra.

Annað framúrskarandi verkefni sem á bæði fæðingarstað og lögheimili á kennsluborði Jóns eru Jökulmælingar sem nemendur í Hvolsskóla hafa stundað í tíu ár, eða frá árinu 2010. Á hverju hausti fara sjöundubekkingar skólans að jökulsporði Sólheimajökuls og mæla með hjálp GPS punkta hversu mikið jökullinn hopar ár frá ári, en árlega hopar jökullinn um tugi metra. Nokkrum árum eftir að verkefnið hófst var útlit fyrir að rof kæmi í mælingarnar því eftir því sem jökullinn hafði bráðnað hafði myndast lón við jökulsporðinn og því ekki hægt að mæla nema úr bát. Jón dó þó ekki ráðalaus heldur fékk í lið með sér björgunarsveitina í sveitinni sem kom með bát og búnað til ísgöngu. Þannig hefur Jón ekki eingöngu virkjað nemendur í rannsóknir og náttúruupplifun við jökulinn heima í héraði heldur einnig nærsamfélagið og um leið opnað augu barna og fullorðinna fyrir áþreifanlegum afleiðingum loftslagsbreytinga í sínu nánasta umhverfi.

Þetta verkefni hefur vakið heilmikla athygli, bæði hér innanlands en ekki síður erlendis. Þannig tóku Jón og nemendur hans í sumar á móti Frank-Walter Steinmeier forseta Þýskalands og Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands og fóru með þeim að Sólheimajökli þar sem nemendur svöruðu spurningum bæði fyrirmenna og fjölmiðla. Og það er ekki bara íslenska pressan sem er áhugasöm heldur hefur Jón vart undan að svara helstu fjölmiðlum heimsins um verkefnið. Þannig er von á blaðamönnum frá New York Times í vikunni sem ætla að fjalla um jökulmælingarnar og í næsta mánuði þegar þær fara fram ætlar alþjóðlega fréttaveitan AFP að slást í för sem og Al Jazeera fréttastofan.

Jón hefur komið á eða að fjölmörgum fleiri umhverfisverndarverkefnum í Hvolsskóla, fjallgöngum, sorpflokkun, gerð moltu með ormum, að draga úr matarsóun og svo mætti lengi telja.

Góðir gestir

Það væri nefnilega hægt að halda endalaust áfram að tala um afrek Jóns á sviði náttúru- og umhverfiskennslu. Kjarninn er sá að með elju sinni, ástríðu og hugmyndaauðgi hefur Jón haft ómetanleg áhrif á hundruð barna sem hafa verið svo lánsöm að hafa haft hann sem kennara. Og, öll þekkjum við hvaða máli góður kennari og mannvinur skilar í uppeldi okkar. Sjálfur minnist ég með hlýhug margra kennara minna og ég veit að nemendur Jóns gera slíkt hið sama. Með því að fá tækifæri til að upplifa náttúruna á eigin skinni hafa þau öðlast dýpri skilning á lögmálum hennar, skynjað hversu sterk og viðkvæm hún getur verið í senn og lært að meta fegurð hennar og kraft. Það þarf enginn að efast um að slíkt veganesti skapar virðingu fyrir náttúrunni sem er svo nauðsynleg eigi okkur að takast að byggja þessa jörð til framtíðar.

Ég er viss um að nemendur Jóns verða fremstir í flokki í baráttunni fyrir umhverfi- og náttúru í framtíðinni – og reyndar kæmi mér ekki á óvart ef þeir væru þegar í hópi þeirra ungmenna sem nú kalla á aðgerðir og halda okkur stjórnmálafólkinu og ráðamönnunum svo sannarlega við efnið.

Ég vil biðja Jón um að koma hingað og taka við Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti. Hér og nú fær Jón bæði blóm og fínerís skjal en að auki verður, að ósk Jóns sett upp skilti inn við Sólheimajökul með upplýsingum um rannsóknir og vinnu nemendanna.

Nemendur í 7. bekk Hvolsskóla hafa farið að jöklinum undanfarin ...